Efnahagsvöxtur mun verða mjög veikburða á heimsvísu á komandi ári að því er fram kemur í frétt Reuters í London í dag. Vitnað er í fyrrverandi bankamann sem vari við ástandinu vegna þess að stöðnun ríki í lánveitingum til fyrirtækja og heimila. Því séu áhyggjur um að fjármálakreppan komi til með að versna og var lengur en ella.

Eins og fram kom í fréttum í morgun íhuga japönsk yfirvöld að kaupa upp áhættusöm lán og fjárfestingar af bönkum þar í landi upp á 110 milljarða dollara til að styrkja stöðu þeirra. Þar telja menn að niðursveiflan nú sé sú versta síðan árið 1930.

Hlutabréf styrktust heldur á þessum síðasta markaðsdegi ársins í Japan. Veitir þar sannarlega ekki af eftir að Japanir hafa þurft að horfa á Nikkei vísitöluna hrapa um 42% á árinu. Er það mesta verðfall í 58 ára sögu markaðarins.

Í Evrópu héldu verðbréfamarkaðir í horfinu í dag eftir 46% verðfall á þessu ári. John Hurley, sem situr í stjórn seðlabanka Evrópu sagði í grein í Irish Times að vandræði fjármálamarkaðarins yllu vandræðum um allan heim.

Því sé búist við að hagvöxtur verði mjög lítill á árinu 2009. Hefur evrópski seðlabankinn þegar dregið úr væntingum vegna evrusvæðisins sem gerði samt ráð fyrir 1% samdrætti.

Lán til fyrirtækja og heimila stöðvaðist í Evrópu í nóvember og er það versta ástand á lánamörkuðum í álfunni nokkru sinni. Hefur þetta fætt af sér vangaveltur um að evrópski seðlabankinn kunni að lækka stýrivexti sína enn frekar.

Haft er eftir Martin Van Vliet, hagfræðingi hjá ING Financial Markets að snöggur samdráttur í lánveitingum á evrusvæðinu kunni að auka enn frekar ótta manna á efnahagshruni. Bent er að smásöluverslun í desember hafi dregist saman og er það sjöundi mánuðurinn í röð.

Forsvarsmaður BGA, samtaka þýskra útflytjenda, spáir samdrætti í útflutningi í fyrsta sinn síðan 1993. Þá spá sérfræðingar miklum samdrætti í fjárfestingum og neyslu á árinu 2009.