Hagfræðideild Landsbankans spáir óbreyttu gildi vísitölunnar milli mánaða þegar Hagstofan birtir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs (VNV) á miðvikudaginn 27. nóvember. Gangi spáin eftir lækkar tólf mánaða verðbólga úr 2,8% niður í 2,5% sem er jafnframt verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá sem deildin birti núna í morgun

Hagfræðideildin á von á að verðbólga verði 2,1% í lok árs en taki að hækka aftur í febrúar 2020 og verði 2,6%.

Helstu óvissuþættir í spá bankans eru húsnæðisverð, flugfargjöld til útlanda, þróun launa og stað fyrirtækja.

„Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,58% milli mánaða í ágúst og 0,59% milli mánaða í september. Kostnaður við að búa í eigin húsnæði í VNV (reiknuð húsaleiga) hækkaði síðan um 1,05% milli mánaða í október, en sú mæling er byggð á fasteignverði í júlí, ágúst og september. Þetta eru mun meiri hækkanir en við gerðum ráð fyrir áður en þessar tölur voru birtar. Ef áframhald verður á þessari þróun mun það vega töluvert til hækkunar verðbólgu,“ segir í Hagsjánni og um þróun flugfargjalda segir deildin:

„ Okkur og öðrum greiningaraðilum hefur gengið mun verr að spá fyrir um mælingu Hagstofunnar á flugfargjöldum til útlanda en nokkurn annan undirlið vísitölunnar síðustu mánuði. Ekki er ólíklegt að hér spili inn í að Hagstofan hefur þurft að breyta aðferðafræði sinni við mælingu á flugfargjöldum til útlanda í kjölfar falls WOW air í lok mars. Þar til meiri reynsla er komin á mælingar Hagstofunnar má búast við að áfram verði erfitt að spá fyrir um þennan lið.“