Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni lækka um 0,9% í janúarmánuði frá mánuðinum á undan. Gangi spáin eftir hjaðnar verðbólga úr 0,8% í 0,6% og verður þar með áfram undir neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Skattbreytingar hafa veruleg áhrif

Í verðbólguspánni kemur fram að breytingar á opinberum gjöldum um liðin áramót hafi veruleg áhrif á marga undirliði vísitölu neysluverðs. Áhrifin séu mest á raftæki, hljómflutningstæki og sjónvörp annars vegar og hins vegar á liði á borð við ósætar matvörur, húshitun, bækur og blöð, gistingu og fleira.

Einnig séu útsöluáhrifin sterk til lækkunar á vísitölunni eins og venjulega. Gerir greiningardeildin þannig ráð fyrir svipuðum útsöluáhrifum og undanfarin ár, en lækkun efra þreps virðisaukaskatts auk afnáms vörugjalda í sumum tilfellum geri að verkum að þeir vöruflokkar þar sem útsöluáhrif eru að jafnaði sterkust lækka meira en venjulega að þessu sinni.

Annar áhrifvaldur verður mikil lækkun eldsneytis og flugfargjalda, en ekkert lát hefur verið á verðlækkun á olíu á heimsmarkaði undanfarið.

Verðbólga undir markmiði út árið

Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að verðbólga muni aukast jafnt og þétt út árið 2015. Spáir hún því að hún muni mælast 2,0% í árslok, en árið 2016 muni hún svo aukast enn frekar og verða 2,8% yfir það ár.

Verðbólga verði þó nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er 2,5%, í lok spátímans, og gangi spáin eftir verði um að ræða lengsta tímabil lágrar og stöðugrar verðbólgu í hálfan annan áratug.