*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 29. janúar 2018 13:02

Spá verðbólgu við verðbólgumarkmið

Íslandsbanki vanmat hækkun húsnæðisverðs og þar af leiðandi verðbólguna í janúar sem reyndist 2,4%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Útlit er fyrir að næstu mánuði verði verðbólgan áfram við 2,5% markmið Seðlabankans að mati Greiningar Íslandsbanka. Segir bankinn að ein helsta ástæðan þess að mæld verðbólga hafi aukist töluvert í janúar, eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun, hafi verið óvæntur fjörkippur í íbúðaverði.

Lækkaði vísitala neysluverðs um 0,09% í janúar, sem er mun minni lækkun en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um, en Íslandsbanki og IFS höfðu spáð 0,6% lækkun, Landsbankinn og Arion banki höfðu spáð 0,5% lækkun.

Segir Íslandsbanki að munurinn á spá bankans og tölum Hagstofunnar liggi í óvæntri hækkun reiknaðrar húsaleigu, en hún endurspeglar íbúðaverð að mestu. Jafnframt lækkaði ferða- og flutningaliður vísitölunnar minna en bankinn hafði spáð.

Misvísandi tölur um þróun húsnæðisverðs

Húsnæðisliðurinn hafi vegið þungt í hækkun verðvísitölunnar, hann hafi hækkað um 1,1%. Mest muni um 0,9% hækkun reiknaðrar húsaleigu, sem sé sá liður sem byggi að mestu á þróun íbúðaverð. Greidd húsaleiga hafi einnig hækkað um 0,9% og veitugjöld hafi hækkað um 1,8%, sem og annað vegna húsnæðis sem hafi hækkað um 4,8%.

Viðskiptablaðið hefur hins vegar fjallað um lækkun verðs íbúðahúsnæðis í fjölbýlum í nokkrum hverfum borgarinnar í síðasta mánuði sem byggði á tölum Þjóðskrár. Íslandsbanki segir hins vegar að verð í fjölbýli hafi hækkað um 0,6%, en verð í sérbýli hafi lækkað um 2,0% milli mánaða. 

Mestu munaði þó um verð á landsbyggðinni sem hækkaði um 5,4% á milli mánaða og hefur ekki hækkað meira í nærri 5 ár. Þessar tölur lýsa þó að stórum hluta flökti milli mánaðarmælinga, og eru í reynd spegilmynd af desembertölum Hagstofunnar segir bankinn til skýringar á þessum mismun.

14,5% hækkun húsnæðisverðs á einu ári

Þar hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæði um 1,2% á meðan verð fjölbýla á höfuðborgarsvæði lækkaði um 1,3% og verð á landsbyggðinni lækkaði um 3,2%. Flökt í þessum tölum er því mikið þessa dagana, sem gerir túlkun þeirra snúna. Hins vegar hafi íbúðaverð hækkað um 14,5% undanfarna 12 mánuði.

Spáir bankinn nú að vísitalan hækki um 0,7% í febrúar, 0,4% í mars og 0,3% í apríl, svo verðbólgan muni því mælast 2,5% í apríl.