Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,05% á milli mánaða í janúar. Gangi það eftir fer verðbólga úr 5,3% í 6,3%. Verðbólgutölur sem þessar hafa ekki sést í tæp tvö ár eða síðan í maí í hittifyrra.

Hagfræðideildin segir ástæðuna fyrir þetta mikilli verðbólguhækkun nú þá að í janúar í fyrra hafi dregið mikið úr verðbólgunni. Þá hafi útvarpsgjaldið verið tekið úr mælingum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs með tilheyrandi áhrifum til lækkunar vísitölunnar þann mánuðinn.

Það sem helst stýrir verðbólgunni nú eru almennar gjaldskrárhækkanir í mánuðinum, þar á meðal orkukostnaður, símakostnaður og áfengisverð. Þá hefur bensínverð hækkað töluvert, eða um 5,2% að viðbættri gengisveikingu krónunnar sem olli því að matvöruverð hefur hækkað.

Hagfræðideildin segir verðbólgu nú nálægt því að ná hámarki og muni hún hjaðna eftir því sem líði á ári.