Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,1% í júlí frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í greiningu frá bankanum .

„Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga vera örlítið ofan markmið Seðlabankans og mælast 2,7% en hún mældist 2,6% í júní. Verðbólguhorfur eru þó góðar og er útlit fyrir að verðbólga haldist að jafnaði undir markmiði á næstu misserum," segir í greiningunni.

Krónan hefur veikst töluvert á þessu ári þrátt fyrir minniháttar styrkingu í júní. Frá áramótum hefur krónan veikst um ríflega 15% gagnvart dollaranum og tæp 16% gagnvart evrunni.

„Í mælingu okkar vega mest til lækkunar hinar hefðbundnu útsölur á þessum tíma árs. Við spáum því að verðbólga muni vera undir markmiði Seðlabankans og mælast að meðaltali 2,4% á þessu ári, 2,2% árið 2021 og 2,4% árið 2022."