Eftirspurn eftir olíu mun minnka á þessu ári um 430.000 tunnur á dag samkvæmt nýjustu könnun Reuters. Var könnunin gerð meðal 10 sérfræðinga greiningarfyrirtækja, banka og framleiðslufyrirtækja. Er þetta mun meiri samdráttur í eftirspurn en spáð var í nóvember.

Í könnun Reuters í nóvember var því spáð að eftirspurn eftir olíu á árinu 2009 myndi dragast saman sem næmi 20.000 tunnum á dag í kjölfar svipaðs samdráttar sem varð á árinu 2008. Nýjasta spáin gerir hins vegar ráð fyrir samdrætti upp á 430.00 tunnur á dag.

Haft er eftir Simon Wardell, sérfræðingi hjá Global Insight, að svo virtist sem efnahagskreppan hafi mun meiri áhrif í Asíu en áður var búist við. - „Framleiðsla og útflutningur mun minnka og samdráttur í heimsviðskiptunum mun án efa hafa áhrif á eftirspurn eftir olíu,” segir Wardell.

Síðast varð verulegur samdráttur í eftirspurn í byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Kom sá samdráttur í kjölfar mikilla verðhækkana og olíuverðskrísunnar 1979 og viðbragða Bandaríkjamanna við henni.