Margt bendir til þess að frekari þróun verði á sameiningu lífeyrissjóða þannig að eftir nokkur ár verði starfandi mun færri sjóðir en nú er jafnvel á bilinu tíu til fimmtán sjóðir. Þetta kemur fram í stefnumótunarvinnu sem stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða kynnti á fulltrúaráðsfundi samtakanna fyrir skömmu.

Það er einnig niðurstaða stefnumótunarvinnu LL að með auknum viðbótarlífeyrissparnaði almennings gefst einnig möguleiki
á sveigjanlegum lífeyrisgreiðslum. Ennfremur má búast við auknum
sveigjanleika varðandi innborguð iðgjöld sjóðfélaga t.d að heimildir
launþega til viðbótarlífeyrissparnaðar verði auknar.

Við sama tækifæri kom fram að það væri hins vegar nokkurt áhyggjuefni hvað réttindakerfi lífeyrissjóðanna er mismunandi að gerð og uppbyggingu. Þróunin er sú að lífeyrissjóðir eru að færa sig úr jafnri réttindaávinnslu í aldursháð réttindakerfi. Eftir sem áður eru réttindakerfin flókin sem skapar oft og tíðum erfiðleika hjá sjóðfélögum við að átta sig á réttindaávinnslunni.
Oft er um að ræða litla þátttöku sjóðfélaga á ársfundum og fræðslufundum
lífeyrissjóðanna þó svo að fræðsluefni hafi farið vaxandi m.a.
með tilkomu internetsins.