Greiningardeild Landsbankans spáir því að svigrúm til vaxtalækkunar muni koma í ljós fyrr en Seðlabankinn hyggur. Eftir því sem slíkar vísbendingar verða sterkari mun bankinn að þeirra mati mati skipta um skoðun og flýta vaxtalækkunarferlinu.

Í Vegvísi Landsbankans í dag er bent á að kosningarnar í Hafnarfirði um síðustu helgi þar sem ákveðinni hugmynd að deiliskipulagi í Straumsvík var hafnað styrkir fyrri spá þeirra um að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir um mitt þetta ár.

Þrátt fyrir að stækkun í Straumsvík hafi verið slegin af í bili eru enn yfirgnæfandi líkur á því að áframhald verði á stóriðjuframkvæmdum hér á landi á næstu árum. Áform um álver í Helguvík, hugsanlega önnur útfærsla á stækkun Alcan verksmiðjunnar og síðan hugsanlegt álver við Húsavík eru allt dæmi um líklegar stóriðjuframkvæmdir. Óvissan um tímasetningu er hins vegar meiri en nokkru sinni. Að okkar mati eru hverfandi líkur á því að í slíkar framkvæmdir verið ráðist fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Jafnframt ætti það efnahagslega ójafnvægi sem Seðlabankinn hefur hvað mestar áhyggjur af að hjaðna á næstu mánuðum.