Niðurstaða Greiningardeildar Landsbankans er því sú að stýrivextir Seðlabankans fari hækkandi á næstu mánuðum og fari hæst í 10% á þriðja ársfjórðungi næsta árs. Þar með fara raunstýrivextir bankans í um 6% miðað við verðbólguhorfur eins og þær eru nú metnar af Seðlabankanum sjálfum. Eftir að stýrivextir ná hámarki er mikilvægt að þeim verði haldið óbreyttum um nokkurt skeið til þess að tryggja raunverulega virkni á þær hagstærðir sem skipta mestu máli, þ.e. eftirspurn og verðbólguvæntingar.

"Því er ekki að vænta lækkandi stýrivaxta fyrr en í fyrsta lagi þegar langt er liðið á árið 2006 og augljóst má vera að efnahagsuppsveiflunni sé um það bil að ljúka," segir í Vegvísi Landsbankans.