Verðbólguspá IFS greiningar fyrir aprílmánuð hljóðar upp á 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 11,5% og hefur ekki mælst lægri síðan í mars 2008. Í mars mældist mesta verðhjöðnun í einstökum mánuði í yfir 20 ár.

Ef að spá IFS gengur eftir er 3 mánaða verðbólga1 0% og hækkun vísitölu neysluverðs frá áramótum aðeins 0,6%.

Samkvæmt verðkönnun IFS hækkaði verð á matvælum um 1% í apríl sem hefur 0,12% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Aðallega virðist verð á innfluttum matvælum hafa hækkað auk þess sem að páskasteikin virðist hafa hækkað nokkuð fyrir páska en kjötvörur hækka oftast fyrir stórhátíðir.

Eldsneytisverð hefur tekið nokkurn kipp samhliða lægra gengi krónu og hefur eldsneytisverð hækkað um 5% frá síðustu verðbólgumælingu sem hefur um 0,25% áhrif á vísitölu neysluverð til hækkunar. Á móti hækkun á matvælum og eldsneyti vegur lækkun á fasteignaverði. Í síðasta mánuði lækkaði reiknuð húsaleiga um 5,1% sem er fasteignaverð leiðrétt fyrir fjármagnskostnaði og makaskiptum. Við búumst ekki við jafn mikilli lækkun nú og í síðasta mánuði og spáum 4% lækkun. Vextir sem eru notaðir við núvirðingu vegna makaskiptasamninga eru lægri nú en síðast og leiðrétting vegna makaskipta ætti að hafa minni áhrif.

Áhrif lægra fasteignaverðs á vísitöluneysluverðs eru um 0,65% til lækkunar.