Greiningardeild Íslandsbanka telur líklegt, miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag, að vextir á nýjum íbúðalánum verði á bilinu 4,5%-4,8% eftir fyrsta íbúðabréfaútboðið. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka. Að þeirra mati eru vaxtakjör íbúðalána nú í efri mörkum þess sem búast má við eftir fyrsta íbúðabréfaútboðið sem verður um miðjan mánuðinn.

Eins og fjallað var um í Morgunkorni í gær hafa vextir á nýjum íbúðalánum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verið ákvarðaðir 4,8%. Samkvæmt upplýsingum frá ÍLS taka þessi kjör mið af þeim fjármunum sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar nú vegna þeirra uppgreiðslna sem verið hafa á eldri lánum undanfarna mánuði. Því er í raun ekki hægt að áætla framtíðar vaxtaálag sjóðsins út frá þeim vöxtum sem lánin bera í dag segir greiningardeild Íslandsbanka.

Þeir benda ennfremur á að fyrsta íbúðabréfaútboðið sem áætlað er um miðjan þennan mánuð mun marka kjör lánanna eftir þann tíma. Til viðbótar þeirrar ávöxtunarkröfu sem gerð verður til bréfanna í útboðinu mun Íbúðalánasjóður leggja á vaxtaálag vegna rekstrarkostnaðar, útlánataps og áhættustýringar sjóðsins. Tveir fyrri þættirnir voru metnir upp á 0,35% í húsbréfalánakerfinu en álag vegna áhættustýringar verður breytilegt og tekur mið af uppgreiðslum íbúðalána á hverjum tíma. "Að okkar mati er líklegt að heildarálagið verði á bilinu 0,5%-0,75% og miðað við ávöxtunarkröfu húsnæðisbréfa á markaði í dag myndi það þýða vexti til íbúðakaupenda upp á 4,6%-4,9%. Hins vegar má ætla að ávöxtunarkrafa íbúðabréfanna verði eitthvað lægri en krafan á húsnæðisbréfunum vegna stærðar flokkanna og betra markaðshæfis þeirra. Við teljum því líklegt, miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag, að vextir á nýjum íbúðalánum verði á bilinu 4,5%-4,8% eftir fyrsta íbúðabréfaútboðið," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.