*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 23. apríl 2021 19:03

SPAC-félög keyra upp ruslflokka

Fjármagn sem fylgir sérhæfðum yfirtökufélögum hefur haft áhrif til hækkunar á skuldabréfamarkaði vestanhafs.

Jóhann Óli Eiðsson
epa

Innreið sérhæfðra yfirtökufélaga, svokallaðra SPAC-félaga, og fjármagns sem þeim fylgir hefur haft umtalsverð áhrif á skuldabréf í ruslflokki og félaga í fjárhagskröggum. Aðilar á markaði vestanhafs sjá ýmis tákn á lofti sem minna á hápunkt dot.com uppsveiflunnar.

SPAC-félög (e. special-purpose acquision companies) eru tiltölulega nýlegt fyrirbæri en vinsældir þeirra hafa aukist umtalsvert. Í einföldu máli felst í þeim að stofnað er félag og fjármagni síðan safnað í það með almennu útboði. Að því búnu er félagið skráð á markað og nýtt til öfugs samruna við félag sem ekki er skráð í kauphöll. Skráningarlýsing fyrir slíkt félag er mun auðveldari í gerð heldur en ella. Það er því einkenni SPAC-félaga að fjárfestar veðja á fólkið í brúnni en ekki undirliggjandi rekstur.

Það sem af er ári hafa SPAC-félög safnað um 100 milljörðum dala í almennum útboðum en til samanburðar má nefna að þau söfnuðu um 83 milljörðum dala allt árið í fyrra. Hluti þeirra hefur einbeitt sér að því að taka yfir félög með lélega lánshæfiseinkunn og slæma skuldastöðu. Fjármagnið er síðan nýtt til að greiða niður skuldir og einbeita sér síðan að frekari uppbyggingu rekstrarins.

Eins og gefur að skilja hefur þróunin haft nokkur áhrif á skuldabréfamarkaðinn vestanhafs. Í byrjun árs hækkuðu skuldabréf WeWork til að mynda um fjórðung eftir að fregnir bárust af því að félagið væri í viðræðum við SPAC-félag um yfirtöku. Svipaða sögu má segja af Cyxtera Technologis en skráð skuldabréf þess hækkuðu um 16% kjölfar áþekkra fregna. Skömmu áður höfðu lánshæfismatsfyrirtæki spáð því að stutt væri að félagið færi í þrot.

„Margir á hávaxtamarkaðnum eru að upplifa hálfgert „deja vu“ núna frá því sem var í gangi á síðari hluta tíunda áratugarins,“ hefur Wall Street Journal eftir framkvæmdastjóra Citigroup. Andre Hakkak, framkvæmdastjóri White Oak Global Advisors, tekur í svipaðan streng og telur að nokkuð sé síðan markaðurinn fyrir SPAC-félög varð mettur. „Þetta minnir á það þegar fólk keypti nokkur hús án þess að hafa eigið fé fyrir útborgun,“ segir Hakkak.

Aðrir viðmælendur WSJ benda á móti á að staðan á hávaxtamarkaðnum nú talsvert önnur og betri en þá.

Stikkorð: SPAC