Sprotafyrirtæki Elon Musk, SpaceX, hefur nú loks tekist að lenda aftur eldflaug á snærum sínum. Hinni svokölluðu Falcon 9 eldflaug var flogið 200 kílómetra út í geiminn áður en henni var svo lent á ný á Canaveral-höfða í Flórída.

Þrátt fyrir að lendingin sé stórt skref fyrir SpaceX er þetta ekki í fyrsta sinn sem eldlfaug er lent eftir geimskot. Blue Origin, geimferðafélagi Jeff Bezos stofnanda Amazon og eiganda Washington Post, tókst að lenda eldflaug sinni, sem heitir New Shepard.

Þó er ekki auðvelt að bera skotin saman. Til að mynda fór New Shepard aðeins 100 kílómetra út í geim, auk þess sem Falcon 9 er lengri, þyngri og hraðskreiðari. Einnig er Falcon-flaugin fimmtán sinnum kraftmeiri.

Ef til vill mætti segja að Falcon væri líkari raunverulegri geimeldflaug eins og við þekkjum þær, án þess þó að lítið sé gert úr árangri Blue Origin. Í öllum tilfellum þýða lendingar félaganna tveggja að búast megi við langtum betri nýtingu í eldflaugatækni héðan af.

The Verge fjallaði rækilega um geimskotin, og grannskoðaði muninn milli flauganna tveggja. Myndband frá þeim má sjá hér að neðan.