Elon Musk greindi frá því í fyrsta sinn í gær að geimflaugafyrirtækið hans, SpaceX, hafi fjárfest í Bitcoin. Hann sagði jafnframt að Tesla myndi „mjög líklega“ byrja að taka aftur við rafmyntinni sem greiðslumáta. Financial Times greinir frá.

Musk sagði að hann ætti sjálfur Bitcoin, Ethereum og að sjálfsögðu Dogecoin, sem hann tístar reglulega um. Þá gaf hann til kynna að bæði SpaceX og Tesla ætli ekki að losa sig við rafmyntina. „Við erum ekki að selja nein Bitcoin og það á einnig um mig sjálfan,“ sagði Musk. „Ég vil gjarnan sjá Bitcoin ganga vel.“

Musk lét ummælin falla í pallborðsumræðum með Jack Dorsey, forstjóra Twitter, og Cathie Wood, forstjóra Ark Inest. Þau voru stödd á stafrænu ráðstefnunni The B Word sem haldin var af samtökunum Crypto Council for Innovation.

Musk kvartaði yfir neikvæðum nafnvöxtum á bankareikningum Tesla í Evrópu. „Það er nokkuð pirrandi að sjá bankainnstæðuna lækka í rauntíma í Evrópu. Þetta er klikkað! Þú ert að borga bönkum fyrir að geyma peningana þína. Við ættum klárlega að færa [innstæðurnar] yfir í Bitcoin.“

Gengi Bitcoin og ethereum hefur hækkað um meira en 5% í kjölfar ummælanna. Bitcoin er nú komið aftur upp í 31.900 dali eftir að hafa farið undir 30 þúsund dali fyrr í vikunni.

Rafmyntagröftur að verða umhverfisvænni

Musk svaraði einnig gagnrýnendum sem hafa ásakað hann um að hagnýta Twitter aðgang sinn, sem er með 58 milljónir fylgjendur, til að valda sveiflum í gengi rafmyntarinnar. „Ef verð á Bitcoin lækkar þá tapa ég peningum. Ég gæti „pumpað“ en ég „dumpa“ ekki.“

Bitcoin hækkaði hressilega í verði í Musk tilkynnti í febrúar síðastliðnum um að Telsa hefði fjárfest í rafmyntinni fyrir einn og hálfan milljarð dala og að rafbílaframleiðandinn myndi taka við henni sem greiðslumáta. Í maí ákvað hann hins vegar að loka á þennan valmöguleika vegna umhverfissjónarmiða. Bitcoin hrapaði um 14% strax í kjölfarið.

„Það lítur út fyrir að bitcoin sé að færast í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum ásamt því að stór fjöldi kolaverksmiðja sem hafa verið nýttar í þessum tilgangi hafi verið lokaðar, sérstaklega í Kína,“ sagði Musk í gær. Hann hyggst jafnframt staðfesta að í það minnsta helmingur af orku sem fer í rafmyntagröft hjá bitcoin komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum.