Geimfyrirtækið SpaceX hefur tryggt sér 1,5 milljarða dala fjármögnun, að því er kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Í kjölfarið er félagið metið á 125 milljarða dala, eða sem nemur 16 þúsund milljörðum króna. Til samanburðar var félagið metið á 100 milljarða dali á síðasta ári.

Fjármagnið mun nýtast í marga milljarða dala verkefni og til að standa frammi fyrir vaxandi kostnaði, að því er kemur fram í greininni. Eitt af þessum fjármagnsfreku verkefnum er Starlink, en Musk sagði á síðasta ári að SpaceX myndi að öllum líkindum fjárfesta á bilinu 5-10 milljarða dala í Starlink.

Starlink heldur úti neti meira en 2.400 gervitungla sem ætlað er að veita aðgang að netinu um alla jörð, en félagið tilkynnti fyrr á árinu að það hafi getu til að setja upp 45 gervitungl á viku. Auk þess hefur félagið sótt um leyfi til að setja upp tugþúsundir gervitungla til viðbótar.