Verðbólguspá fyrir maí hljóðar upp á 0,4% hækkun verðlags frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir lækkar tólf mánaða verðbólga úr 2,4% í 2,3%. Verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli hækkar úr 2,5% í 3,2%. Hagstofan birtir verðbólgutölur föstudaginn 27. júní. Helstu áhrifavaldar á hækkun verðlags nú eru húsnæðis-, flutninga- og menntunarliðirnir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá IFS greiningu.

Ferða- og flutningaliðurinn hækkar

Þrátt fyrir að frumvarp fjármálaráðherra um gjaldskrárlækkanir hafi tekið gildi 1. júní s.l. hækkar verð á bensíni frá fyrri mánuði. Verð á bensíni hækkar um 1,67% milli mánaða á meðan verð á dísilolíu hækkar um 0,65%. Liðurinn bensín og olíur hækkar því um 1,48% milli mánaða (vísitöluáhrif: +0,06%). Flugliðurinn hækkar vanalega í júnímánuði og samkvæmt mælingum IFS á helstu flugleiðum Íslendinga gerum við ráð fyrir því að verð á flugi til útlanda hækki um 9% frá fyrri mánuði (+0,14%).

Húsnæðisliðurinn hækkar

Verðmælingar IFS benda til að reiknuð húsaleiga hækki minna í júní en verið hefur undanfarna þrjá mánuði eða um 0,4% frá fyrri mánuði. Jafnframt gerum við ráð fyrir því að greidd húsaleiga hækki um 0,4% milli mánaða. Viðhald húsnæðis hækkar minna eða um 0,5%. Húsnæðisliðurinn hækkar því um 0,33% (+0,09%) milli mánaða.

Skrásetningargjöld hækka

Skrásetningagjöld í opinbera háskóla hækka úr 60 þúsund krónum í 75 þúsund krónur og kemur hækkun fram í júnímánuði. Liðurinn menntun hækkar því um 8,3% milli mánaða (+0,09%).

Annars breytast aðrir liðir lítið.