Pítsastaðurinn Spaðinn hefur lokað eftir rúmlega tveggja ára starfsemi. Síðasti starfsdagurinn á Dalvegi var í gær, 3. júlí, en fyrirtækið lokaði hinu útibúinu sínu við Fjarðargötu í Hafnarfirði í apríl síðastliðnum.

Í tilkynningu sem Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Spaðans, sendi frá sér segir að rekstur fyrirtækisins hafi af ýmsum ástæðum gengið erfiðlega undanfarið. Eigendur fyrirtækisins hafi leitað allra leiða til að halda rekstrinum gangandi en þær tilraunir hafa ekki borið árangur.

„Skuldir Spaðans eru nær einvörðungu við eigendur fyrirtækisins en þar sem rekstrargrundvöllur er brostinn er það mat eiganda að réttast sé að hætta starfsemi,“ segir í tilkynningu Spaðans.

Í árslok 2020 átti Þórarinn 51% hlut í félaginu. Samkvæmt síðasta ársreikningi sem fyrirtækið skilaði fyrir árið 2020 voru meðal annarra hluthafa þeir Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir, eigendur Ikea á Íslandi og tannlæknirinn Marta Þórðardóttir, eiginkona Guðna Rafns Eiríkssonar sem á Skakkaturn, umboðsaðila Apple á Íslandi.