Pítsastaðurinn Spaðinn lokaði útibúi sínu við Fjarðargötu í Hafnarfirði í apríl eftir erfiðan rekstur í Covid-faraldrinum. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdarstjóri Spaðans, staðfestir þetta við Fréttablaðið .

„Þetta gekk verr en við áttum von á, en við vorum búin að reyna þetta í eitt og hálft ár. Eins ömurlegt og það er, þá er einfaldlega bara betra að loka en að vera í þeim rekstri eins og þetta leit út,“ hefur Fréttablaðið eftir Þórarni.

Hann útilokar þó ekki að opna aftur við Fjarðargötuna síðar en segir að fyrirtækið ætli að bíða og sjá hvernig sumarið þróist áður en endanleg ákvörðun verði tekin í haust.

Spaðinn rekur nú eitt útibú á Dalvegi 32b í Kópavogi sem var opnað í maí 2020. Útibúið í Hafnarfirði opnaði í október sama ár.

Sjá einnig: IKEA-bræður fjárfestu í Spaðanum

Spaðinn var rekinn með tveggja milljóna króna tapi árið 2020 en félagið hefur ekki skilað ársreikningi vegna síðasta rekstrarárs. Í árslok 2020 átti Þórarinn 51% hlut í félaginu. Meðal annarra hluthafa voru Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir, eigendur Ikea á Íslandi og tannlæknirinn Marta Þórðardóttir, eiginkona Guðna Rafns Eiríkssonar sem á Skakkaturn, umboðsaðila Apple á Íslandi.