Spænska prinsessan Cristina er meðal þeirra sem hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn á meintum skattsvikum og fjárdrætti hjá eiginmanni hennar. Cristina er dóttir Juan Carlos Spánarkonungs og er þetta í fyrsta skipti sem meðlimur konungsfjölskyldunnar liggur undir grun um refsivert athæfi frá því að konungdæmið var endurreist á áttunda áratug síðustu aldar.

Rannsóknardómari á Baleareyjunum í Miðjarðarhafi hefur sakað eiginmann Cristinu, Iñaki Urdangarin, um að hafa dregið opinbert fé frá góðgerðarstofnun sem hann stýrir og flutt það í fyrirtæki sem voru undir stjórn hans og félaga hans. Urdangarin sætir einnig rannsóknar fyrir að hafa ekki staðið skil á sköttum af tekjum sem námu að minnsta kosti hundruðum þúsunda evra. Prinsessan sat í stjórn góðgerðastofnunarinnar. Hvorugt hjónanna hefur þó verið ákært.