Spænska bankakerfið gæti þurft allt að 105 milljörðum evra í fjárhagsaðstoð til að ná lágmarkseiginfjárhlutfalli, að því er greiningarfyrirtækið Moody's segir. Er þetta nær tvöföld sú fjárhæð sem spænska ríkið segir að bankakerfið þurfi á að halda, en þar var niðurstaðan sú að 53,7 milljarða evra væri þörf. Kemur þetta fram í frétt Bloomberg.

Segir í skýrslu Moody's að raunveruleg fjárþörf spænskra banka sé á bilinu 70 til 105 milljarðar evra. Mat spænskra yfirvalda byggðist á álagsprófi, en Moody's segir að séu markaðsaðilar efins um álagsprófið gæti það grafið undan tilraunum spænsku stjórnarinnar til að byggja aftur upp traust á eiginfjárstöðu spænskra banka. Hefur björgunarsjóður ESB verið beðinn um að veita spænskum bönkum aðstoð.