Spænskir bankar þurfa að bæta allt að 50 milljörðum evra, jafnvirði tæpra 8 þúsund milljörðum íslenskra króna, í bækur sínar til að laga efnahagsreikningana til eftir verðfall á fasteignamarkaði.

Þetta er mat Luis de Guindos, efnahagsráðherra Spánar sem tók við embætti rétt fyrir jól. Hann segir í samtali við breska dagblaðið Financial Times í dag mikilvægt að bankarnir bæti stöðu sína án þess að nokkuð falli á herðar skattborgara. Blaðið segir þessi ummæli ráðherrans benda til að hann vilji síður að ríkið leggi fram fjármagn til að koma bönkunum til bjargar.

Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að ríkisstjórnin nýja hafi komist að raun um við stjórnarskipti að staða ríkisfjármála á Spáni væri verri en áður var talið og hafi hún því orðið að kasta kosningaloforði sínu fyrir róða og hækka skatta.