Tekið er að halla undan fæti hjá stjórnendum spænskra banka og þurfa bankarnir á fjármagni að halda til að halda sjó. Stjórnvöld hafa hins vegar neitað að rétta þeim hjálparhönd á nýjan leik. Fjárfestar eru hins vegar tregir til að opna veskið enda hefur virði eigna bankanna lækkað mikið og líkur á að landið verði það næsta í hópi evruríkja til að lenda í greiðsluvanda. Gangi þær svartsýnisspár eftir er næsta víst að einhver fjármálafyrirtæki fari á hliðina.

Bankarnir treysta nú einvörðungu á fjárstuðning evrópska seðlabankans, samkvæmt umfjöllun bandarísku fréttastofunnar CNBC um stöðu efnahagsmála á Spáni. Luis De Guindos, fjármálaráðherra Spánar, segir þennan stuðning engu að síður gera það að verkum að bankar í heimalandi hans uppfylli eiginfjárkröfur evrópska seðlabankans.

Rifjað er upp í umfjöllun CNBC að Spánverjar lentu í vanda þegar fasteignabólan þar sprakk með látum fyrir fjórum árum og virðist lítið lát á lækkun fasteignaverðs þar. Þá er atvinnuleysi á Spáni það mesta á meginlandi Evrópu en fjórði hver einstaklingur er þar á atvinnuleysisskrá.

Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sem tók við rétt fyrir síðustu jól.