*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 31. maí 2020 16:09

Spænskir rækjuveiðimenn uggandi

Verð á rækju hefur hríðfallið sökum þess að veitingastaðir í landinu hafa verið lokaðir að undanförnu.

Ritstjórn
Ástandið á Spáni hefur verið með versta móti og birgðakeðjan liðið fyrir það.
EPA

Spænskir rækjuveiðimenn eru í hópi þeirra fjölmörgu aðila sem hafa nú áhyggjur af afkomu sinni vegna veirufaraldursins. Verð á rækju hefur hríðfallið sökum þess að veitingastaðir í landinu hafa verið lokaðir að undanförnu. Sagt er frá í New York Times

Spænsk rækja er af mörgum álitin lúxusvarningur en þegar mest lætur er kílóið selt á hundrað evrur, ríflega fimmtán þúsund krónur á gengi dagsins. Það verð næst yfirleitt í kringum jól. Áður en Spánn lýsti yfir neyðarástandi vegna Covid-19 var verðið í kringum 70 evrur á kílóið. 

Stærstur hluti aflans, um 90%, hafði vanalega verið ætlaður veitingastöðum sem kepptust um bestu bitana á uppboðsmörkuðum. Nú er staðan önnur og hefur verðið lækkað um helming sökum þess. Staðan er ekki aðeins slæm fyrir rækjuveiðimenn því hið sama gildir um bændur sem rækta grænmeti, ávexti eða dýr. Veitingastaðir hafa ekki heldur getað keypt vörur af þeim.

Algengt er að veiðimenn komi með um tólf kílógrömm af afla í land eftir hálfs dags veiðiferð. Helmings verðfall er því ekkert til að hrópa húrra yfir. Það hjálpar hins vegar til að verð á olíu hefur einnig fallið þannig að sem stendur sleppur þetta til. Mikilvægt sé hins vegar að veitingastaðir opni áður en olían hækkar á nýjan leik. 

Almenningur á Spáni nýtur hins vegar góðs af verðlækkuninni enda margar fjölskyldur nú, sem áður leyfði sér ekki þann munað sem rækjur eru, sem geta keypt vöruna.