Greiningardeild Landsbankans spáir að Vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í apríl en vísitalan birtist á mánudaginn.

?Tólf mánaða verðbólga lækkar niður í 5,1% í apríl og mun þá VNV standa í 268,1 stigi. Það sem vegur þyngst í hækkun verðlags í apríl er hækkandi fasteignaverð og hækkun á verði fatnaðar en á móti vegur vænt lækkun á verðskrám hótela og veitingastaða ásamt vægri lækkun matarverðs,? segir greiningardeildin.

Hún gerir ráð fyrir 4% verðhækkun á fatnaði vegna útsöluloka og einnig hefur eldsneytisverð hækkað það sem af er mánuði, eða um rúmlega 1%. ?Við spáum því að 12 mánaða verðbólga muni halda áfram að lækka næstu mánuði og verði komin í námunda við verðbólgumarkmið Seðlabankans í haust,? segir greiningardeildin.