Í Morgunkorni Glitnis [ GLB ] kom fram að Greiningardeild bankans spái því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% milli október og nóvember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga hækka úr 4,5% í 4,9%. Reiknað er með að verðbólgan aukist og fari upp fyrir 5% í desember og haldist áfram nokkuð mikil fram eftir næsta ári.

Helstu verðbólguvaldar í nóvember
Ein helsta ástæða hækkunar VNV á milli október og nóvember er áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs. Verðhækkun íbúðarhúsnæðis hefur verið mikil undanfarið. Hækkunin yfir síðustu þrjá mánuði nemur tæplega 3,0% á höfuðborgarsvæðinu svo dæmi sé tekið. Sú hækkun mun hafa áhrif á VNV nú. Talsverð hækkun á matvöru á heimsmarkaði t.d. kornvöru mun að öllum líkindum hafa áhrif á verðbólgumælinguna í byrjun nóvember. Einnig er reiknað með því að innlend matvara t.d. kjöt muni hækka lítillega í verði. Eldsneytisverð hefur hækkað mikið á erlendum mörkuðum í þessum mánuði. Í því ljósi reiknum við með lítils háttar hækkun eldsneytisverðs í næsta mánuði. Verðið hefur hins vegar lækkað á allra síðustu dögum sem skapar aukna óvissu um þessa spá.

Töluverð verðbólga áfram
Fram undir mitt ár 2009 gerum við ráð fyrir að verðbólga verði á bilinu 4,5%-5,5%. Verðbólgunni verður haldið uppi á þessum tíma af gengislækkun krónunnar, hækkandi launakostnaði og verðhækkunum húsnæðis. Við reiknum með því að Seðlabankinn nái 2,5% verðbólgumarkmiði sínu undir lok árs 2009.