Greiningardeild Landsbankans [ LAIS ] gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% í desember. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 5,7% en hún hefur ekki verið meiri í 9 mánuði.

Greiningardeildin segir að enn sem fyrr sé húsnæðisliður verðbólgunnar að hækka en þar kemur til hvort tveggja hækkandi húsnæðisverð og hærri vextir af húsnæðislánum. Greiningardeild reiknar með að húsnæðisliðurinn lækki þegar líða tekur á næsta ár eða þegar markaðsverð á húsnæði bregst við hærri vöxtum.

Þá gerir Greiningardeildin ráð fyrir að matvöruverð hækki í desember enda virðast hækkanir erlendis ekki vera að fullu komnar inn í verðlagið hér á landi.