Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans hækki stýrivexti um 0,75 prósentur, úr 6,5% í 7,25%, í næstu viku. Til samanburðar þá hafa stýrivextir á Íslandi ekki verið meiri frá árinu 2010.

„Trúlega verður vaxtahækkun á bilinu 0,5 – 1,0 prósentur rædd og ekki er loku fyrir það skotið að peningastefnunefndin ákveði annað hvort að halda sig í neðri kanti þess bils eða fara í efri mörkin,“ skrifar Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

„Við teljum hins vegar ólíklegt að stigið verði minna skref en hálf prósenta eða stærra en hækkun um heila prósentu.“

Seðlabankinn hækkaði vexti um 0,5 prósentur í byrjun febrúar. Jón Bjarki segir að frá síðustu vaxtaákvörðun hafi ýmislegt þróast heldur til verri vegar hvað verðbóluhorfur varðar.

Hann nefnir þar m.a. að verðbólga mældist 10,2% í febrúar og að verðbólguþrýstingur sé verulegur og á breiðum grunni. Þá sé vinnumarkaðurinn spenntur, verðbólguálag og -væntingar til lengri tíma samræmist illa markmiði Seðlabankans og raunvextir séu enn lágir í ljósi spennu og mikillar verðbólgu.

Á móti kemur hafi gengi krónunnar sótt aðeins í sig veðrið á nýjan leik, áhrif vaxtaákvörðunar séu farin að koma skýrt fram á íbúðamarkaði og vaxtamunur við útlönd hafi aukist að nýju. „Síðarnefndu þættirnir duga hins vegar skammt til að breyta þeirri skoðun nefndarmanna frá febrúar að meira vaxtaaðhalds sé þörf.“

Jón Bjarki telur einnig að frekari hækkun vaxta sé fram undan á öðrum ársfjórðungi. Miðað við nýjustu spár Íslandsbanka um hagþróun og verðbólgu gæti Seðlabankinn látið staðar numið við 7,5% og haldið stýrivöxtum á því stigi út þetta ár.

„Trúlega verða stýrivextir í það minnsta 7,5% um mitt ár og gæti því skrefið í maí orðið stærra ef vaxtahækkunin í mars verður í hóflegri kanti og öfugt.