Líkur eru á að hagvöxtur verði 0,8% á Ítalíu á þessu ári í stað 1,1% eins og fyrri hagspár hljóðuðu upp á. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, kynnti niðurfærða hagspá ríkisstjórnar sinnar í dag. Á sama tíma ítrekaði Renzi að stjórnvöld stefni á að lækka tekjuskatt en hækka álögur á banka.

Breska dagblaðið Financial Times segir Renzi fullyrða að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi gefið græna ljósið á þær efnahagsaðgerðir sem ríkisstjórn hans boði. Gert er ráð fyrir því að hallarekstur Ítalíu verði 2,6% sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er innan þeirra 3% sem evruríkjum eru sett.

Þingmenn úr röðum Forza Italia, sem Silvio Berlusconi leiðir, gagnrýna Renzi og segja væntingar hans byggðar á sandi, þ.e. skattahækkunum.