Bandaríski bankinn Goldman Sachs spáir því að sú hækkun sem verið hefur á erlendum hlutabréfamörkuðum undanfarið sé á enda runnin. Raunar spáir bankinn því að S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum og Evrópska vísitalan STOXX Europe 600 muni falla um 10% á næstu þremur mánuðum. Kemur þetta fram í frétt Bloomberg.

Í greiningu bankans segir að hlutabréf séu hátt verðlögð, en útlit sé fyrir að hægja muni á tekjuvexti helstu fyrirtækja. Því mæli þeir með því að fjárfestar minnki þátt hlutabréfa í eignasöfnum sínum til styttri tíma litið. Á móti mæla þeir með því að fjárfestar auki þátt lausafjár í söfnunum.