Greiningardeild Glitnis spáir að úrvalsvísitalan hækki um 21% yfir árið í afkomuspá sinni en á síðasta ári hækkaði hún um 15,8%.

?Í vel dreifðum eignasöfnum mælum við með yfirvogun á bréfum Kaupþings og HF. Eimskipafélags Íslands. Við teljum að miðað við góða vænta afkomu félaganna á árinu ásamt hóflegri verðlagningu sé gott rými til hækkunar á hlutabréfum félaganna.

Í markaðsvogun eru níu félög: Actavis, Alfesca, Exista, FL Group, Icelandair, Landsbankinn, Mosaic, Straumur-Burðarás og Össur. Verðlagning á bréfum þessara félaga hefur þróast mjög misjafnlega undanfarið enda undirliggjandi rekstur mjög ólíkur. Við teljum að gengi þessara félaga á markaði verði í takti við markaðinn almennt.

Í undirvogun eru sjö félög: Marel, 365, Atorka, Bakkavör, Icelandic Group, Vinnslustöðin og Teymi. Gert er ráð fyrir að þessi félög skili lakari ávöxtun en markaðurinn í heild á árinu 2007. Fyrir þeirri skoðun eru mismunandi ástæður eftir félögum. Nefna má lítinn áhuga fjárfesta og væntingar um slaka afkomu á árinu

Breytingar frá síðustu afkomuspá eru að HF. Eimskipafélag Íslands færist úr undirvogun í yfirvogun. Actavis, Mosaic og Össur færast úr undirvogun í markaðsvogun en í stað þeirra færast Marel og Atorka úr markaðsvogun í undirvogun. Ný félög í spánni eru Icelandair Group sem fer í markaðsvogun og Teymi sem við undirvogum,? segir greiningardeildin.

Hún spáir lægri hagnaði á yfirstandandi rekstrarári en í fyrra en vænt V/H gildi hækkar milli ára úr 10,4 í 11,8. ?Umtalsverður söluhagnaður varð á árinu 2006 en í afkomuspá gerum við ekki ráð fyrir jafn miklum hagnaði af sölu eigna á árinu 2007. Eins hækkar vænt V/H gildi fyrir árið 2007 frá spá okkar í október sl. úr 11,4 í 11,8 en sú hækkun skýrist af hækkun hlutabréfaverðs á tímabilinu. Við teljum að núverandi verðlagning markaðarins sé fjárfestum hagstæð miðað við vænta afkomu og arðsemi ársins 2007,? segir greiningardeildin.