Greiningardeild Íslandsbanka spáir 2,7% hagvexti í ár sem megi að stærstum hluta rekja til bata í útflutningi ásamt hóflegum vexti í fjárfestingu og neyslu. Hún spáir jafnframt að hagvöxtur verði 4,9% árið 2022 vegna enn sterkari viðspyrnu útflutnings og innlendrar eftirspurnar en árið 2023 verði hagvöxtur kominn aftur niður í 2,9% þegar ákveðið jafnvægi myndast við dvínandi áhrif kórónaveirunnar. Þetta kemur fram í nýrri Þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Spá Íslandsbanka liggur nær hagvaxtarspám Seðlabankans í maíhefti Peningamála heldur en í Þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankinn sem kom út fyrr í mánuðinum. Seðlabankinn spáði 3,1% hagvexti í ár, 5,2% á næsta ári og 2,3% árið 2023. Hagfræðideild Landsbankans hafði hins vegar spáð að efnahagsbatinn verði sneggri og að vöxtur landsframleiðslu nemi 4,9% í ár, 3,3% árið 2022 og 2,2% árið 2023.

Í Þjóðhagsspá Íslandsbanka er spáð 700 þúsund ferðamönnum í ár, óbreytt frá janúarspá bankans. Á næsta ári verði fjöldi ferðamanna um 1,3 milljónir og 1,5 milljónir árið 2023. Landsbankinn hafði spáð talsvert fleiri ferðamönnum eða um 800 þúsund í ár, 1,5 milljónir árið 2022 og um 2 milljónir árið 2023.

Atvinnuleysi nái 3,6% aftur árið 2023

Þá mun batinn í ferðaþjónustu ráða mestu um hve hratt dragi úr atvinnuleysi. Greining Íslandsbanka spáir því að meðaltalsatvinnuleysi í ár verði um 8,8%, en til samanburðar mældist atvinnuleysi 11,3% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt Vinnumálastofnun. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði komið í 5,3% árið 2022 og árið 2023 verði það komið á sama stað og það var árið 2019 eða fyrir faraldurinn í 3,6%.

Greining Íslandsbanka væntir þrálátari verðbólgu en vænst var og spáir því að hún verði 4,1% að jafnaði í ár. Því sé útlit fyrir að Seðlabankinn þurfi að hækka stýrivexti og spáir bankinn því að þeir verði 1,25% í lok árs, þ.e. hækki um 0,25 prósentur til viðbótar í ár. Í kjölfarið verði hægfara hækkunarferli og þeir komnir í 3,25% í lok árs 2023.

Gott jafnvægi á utanríkisviðskiptum og sterk erlend staða þjóðarbúsins styðji við krónuna og eru horfur á að hún muni verða nærri 10% sterkari í lok árs 2023 en hún var að jafnaði á síðasta ári.

„Sá geiri sem hefur komið einna mest á óvart frá því að Kórónukreppan skall á er íbúðamarkaðurinn,“ segir í Þjóðhagsspánni. Greiningardeildin segir að framboð af nýjum eignum hafi verið takmarkað og ekki sé útflit fyrir að framboðið aukist á næstunni. Eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði valdi því að íbúðaverð hækkar um 11,3% í ár, 6,7% á því næsta og 4,4% árið 2023.