Greiningardeild Kaupþings spáir því að hagnaður þeirra félaga sem afkomuspár ná til muni nema 99,5 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og aukist um tæplega 75% frá sama tímabili í fyrra. Þá spáir greiningardeildin að hagnaður fjármálafyrirtækja muni aukast um 65% frá sama tíma í fyrra og að afkoma rekstrarfélaga snúist úr tapi í um fimm milljarða króna hagnað.

Þetta kom fram á kynningarfundi greiningardeildarinnar í morgun með markaðsaðilum en deildin mun kynna niðurstöður sínar á morgunverðarfundi á morgun. Þar kom fram að spáð er að lokagildi úrvalsvísitölunnar verði um 8.500 stig.