Greiningardeild Kaupþings spáir árslokagildi Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands í 6.850 stigum, sem felur í sér um 8,5% hækkun á árinu, en u.þ.b. 25% hækkun frá lokagildi gærdagsins. Þetta kemur fram í nýrri afkomuspá deildarinnar, undir yfirskriftinni Þróun og horfur - 4F 2007 . Að mati greiningardeildar verða næstu mánuðir nokkuð erfiðir á hlutabréfamarkaði, eða svo lengi sem ekki sér til botns varðandi lækkanir í Bandaríkjunum.

Spá deildarinnar miðar, að því er segir í skýrslunni, við það að verðkennitölur í fjármálaþjónustu á Norðurlöndum - sem séu nú í 10 ára lágmarki - lyftist upp á árinu og færist nær sögulegu meðaltali, um leið og óvissu vegna afskrifta verði eytt. "Það mun síðan lyfta gengi íslenskra fjármálafélaga að sama marki," segir í spánni.

Þá segir að núverandi fjármálaóstöðugleiki sé rekinn áfram af fjórum þáttum: hnígandi hagsveiflu, sprunginni fasteignabólu, verðleiðréttingu á gjaldþrotaáhættu og auknum kröfum um eigið fé í útlánum.

"Allir þessir fjórir áhættuþættir hafa verið sýnilegir á liðnum árum og talsvert ræddir - en ekki af sama hópi og aldrei allir í einu. Með gjaldþrotum undirmálslána runnu þessir fjórir þættir skyndilega að einum ósi - lausafjárkrísu og eignaverðslækkunum. Að mati Greiningardeildar eru ýmsar vísbendingar um að sú lækkunarhrina sem dunið hefur yfir fjármálafyrirtækin sé nú að nálgast endastöð. Til að mynda hefur helsti mælikvarðinn á lausafjárkrísu - mismunur millibankavaxta og stýrivaxta seðlabanka - verið að ganga niður undanfarið."