Greiningardeild KB banka spáir því að úrvalsvísitalan muni hækka um rúman fjórðung yfir þetta ár og enda árið í 7.000 stigum. Samkvæmt því er helmingur hækkunar vísitölunnar yfir árið þegar kominn fram en hún hefur hækkað um 13% það sem af er þessu ári. KB banki er að gera ráð fyrir örlítið meiri hækkun en Íslandsbanki, sem spáði því í síðustu viku að vísitalan myndi hækka um 20% yfir árið.

KB banki telur almennt horfur á íslenska markaðnum prýðilegar á árinu. Bankinn bendir þó á að kennitölur velflestra fyrirtækja séu orðnar allháar miðað við fyrri tímabil og virðist því markaðurin vera að gera ráð fyrir að fyrirtækin muni áfram ná örum vexti og hárri arðsemi. Það er þó ekki á vísan að róa enda hafa fyrirtækin stækkað mikið undanfarið, bæði með sölu nýs hlutafjár og hagnaði síðastliðinna ára. Það er því mikið verk fyrir höndum að koma þeim fjármunum í jafn arðsaman farveg og hefur hingað til fleytt Úrvalsvísitölunnar í hvert metárið á fætur öðru.

Bankinn gerir ráð fyrir að þetta ár verði að mestu notað til að vinna úr þeim verkefnum sem fyrirtækin hafa ráðist í að undanförnu, en reiknar þó einnig með einhverjum yfirtökum af stærri gerðinni. Bankinn telur að þær muni þó ekki hafa jafn afgerandi áhrif og margar yfirtökur undanfarið, enda íslensku útrásarfyrirtækin mörg hver orðin það stór í dag. Í ljósi þessa gerir KB banki ráð fyrir því að fyrirtækin styrki sig frekar á einstökum sviðum og markaðssyllum sem þau starfa á.