Litlu verðbréfafyrirtækin sem sprottið hafa upp í kringum vaxandi hlutabréfamarkað, munu leita hagræðingar og sameininga á þessu ári, að því er kom fram í máli Ingólfs Benders, forstöðumanns greiningardeildar Glitnis, á morgunfundi Félags um fjárfestatengsl.

Hann segir magnið (e. volume) sem félögin höndla með hafi "dottið niður" og félögin hafi ráðið til sín dýrt vinnuafl.

"Það er alveg augljóst að það þurfa einhverjir að fara í gegnum hagræðingar feril, sem þýðir það verða sameiningar og samrunar á þeim vettvangi," sagði  Ingólfur um minni verðbréfafyrirtækin, spurður af fundagesti hvort líkur séu á samrunum og yfirtökum meðal fjármálafyrirtækja.

Jafnframt segir hann ýmsar vangaveltur vera um hvort breytingar - samrunar og yfirtökur – verði hjá fjárfestingabankanum Straumi og fjármálafyrirtækinu Spron. "Þeir eru hugsanlegir kandidatar í breytingar," sagði Ingólfur.

Ólíkleg sameining meðal stóru bankanna

Ingólfur segir að stóru bankarnir séu farnir að hagræða og endurskipuleggja í rekstri sínum. Talað hefur verið um – manna á milli – um sameiningu þeirra á meðal, þá til dæmis hjá Glitni og Kaupþingi. Ingólfur telur að umhverfið nú til fjármögnunar komi í veg fyrir það.

"Þá er spurningin hvort núverandi verðlagning muni bjóða upp á yfirtöku á einhverjum íslenskum banka gagnvart erlendum bönkum," sagði Ingólfur en það er spurning sem fundargestur lagði fyrir á fundinum. "Ég reikna ekki með því. Ekki í ár að minnsta kosti en þegar menn líta lengra fram á veginn, er það mjög líklegt. Þegar bankarnir sýna góða starfssemi yfir mjög langan tíma og verðlagning er að einhverju leyti hagstæð, held ég að það sé alveg góður möguleiki á því.  Þetta eru tiltölulega litlir bankar," sagði Ingólfur Bender.

P/B gildi Straums undir 1

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, sagði á fundinum að P/B gildið (Price to Book), sem er margfaldari á eigið fé, gefi besta mynd af hugsanlegum yfirtökuskotmörkum. Straumur er, að hennar sögn, eini bankinn sem kominn er niður fyrir gildið 1, það er  0,9. Ef viðskiptavild er tekin með í reikninginn er gildið 1,2.  Það þýðir ef einhver vill yfirtaka þann banka, þarf hann að sjá sér hag í viðskiptavildinni: Bankastarfsseminni eða einhverju slíku.