Seldum bifreiðum í Bandaríkjunum í ár mun fjölga um 6,6% frá því sem var árið 2012 ef marka má spá greiningarfyrirtækisins Polk, sem sérhæfir sig í bílageiranum. Langt sé hins vegar í að bílasala vestra nái þeim hæðum sem hún var í fyrir hrunið 2008.

Árið 2012 seldust 14,3 milljónir bifreiða í Bandaríkjunum og spáir Polk því að á þessu ári muni Bandaríkjamenn kaupa um 15,3 milljónir bíla. Þá gerir fyrirtækið ráð fyrir því að um 15,9 milljónir bifreiða verði framleiddar í Bandaríkjunum, sem er aukning upp á 2,4% milli ára.

Fyrirtækið spáir hóflegri aukningu í sölu á stórum pallbílum og fremur lítilli aukningu í sölu á tvinnbílum, en aukningin verði hressilegri í hefðbundnum bifreiðum af meðalstærð.