Vogunarsjóðsstjórinn Crispin Odey hefur ekki átt sjö dagana sæla þetta árið. Sjóðurinn hans hefur tapað nær 43% frá áramótum og má rekja þá lækkun til áhrifa úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Samkvæmt nýlegu bréfi sem hann sendi fjárfestum, og fréttamenn Bloomberg hafa undir höndum, er hann afar svartsýnn á breska markaði. Hann telur að breskir markaðir geti fallið um allt að 80%.

Breska úrvalsvísitalan FTSE100 hefur hækkað á árinu þrátt fyrir úrslit kosninganna. Afkoma breskra fyrirtækja hefur aftur á móti þurft að finna fyrir meiri ótta í samfélaginu og auk þess eru verðbólguspár byrjaðar að líta illa út.

Sjóðsstjórinn hefur nú þegar tekið skortstöður og er sannfærður um að Bretland verði komið í kreppuástand innan skamms.

Sjóðsstjórinn var þó sjálfur hlynntur útgöngu úr Evrópusambandinu. Sjóðurinn hans hefur verið með tæplega 9 milljarða dala í stýringu, en hefur samt sem áður ekki grætt frá árinu 2014.

Árið 2015 tapaði sjóðurinn 13% og eins og fram kom hafa fjárfestingar sjóðsins lækkað um 43% í ár.