Greiningardeild Kaupþings spáir 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verbólga mælast 4,7% samanborið við 4,5% í október. Hækkunin í mánuðinum helgast af hækkandi fasteigna- og eldsneytisverði, þau áhrif eru þó minni en verið hafa á síðustu mánuðum.

Lág verðbólga í mánuðinum helgast m.a. af verðlækkun á fatnaði og skóm. Að mati Greiningardeildar mun Seðlabanki Íslands tilkynna óbreytta stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi 1. nóvember nk.

Þá verður vaxtalækkunarferli bankans skotið enn lengur á frest að mati greiningardeildarinnar, eða fram í maí 2008. Ástæðan er meiri verðbólga og efnahagsumsvif en fyrri spár bankans gerðu ráð fyrir.

Hráefnaverð úti í heimi hefur farið hækkandi, heimsmarkaðsverð á hráolíu slagar nú hátt í 95 Bandaríkjadali á tunnu. Hækkandi verð hráolíu mun líklega skila sér í hækkandi eldsneytisverði á næstu vikum.

Að mati Greiningardeildar eru verðbólguhorfur til næstu ára góðar, gert er ráð fyrir minnkandi spennu á vinnumarkaði á sama tíma og dregur úr verðhækkunum á fasteignamarkaði.

Óvissuþættir eru þó margir og virðast flestir benda upp á við, m.a. er hætta á því að umsvif hjaðni hægar á fasteignamarkaði og hækkun íbúðaverðs reynist hærri en Greiningardeild gerir ráð fyrir í sinni spá.