greiningardeild Íslandsbanka telur líklegt að krónan muni lækka í verði gagnvart helstu gjaldmiðlum á næstu dögum og vikum. Í Morgunkorni greiningardeildarinnar segir að gengið hafi hækkað mikið á síðustu mánuðum og þar hafi væntinar manna um innstreymi erlends fjármagns í tengslum við sölu Símans ráðið miklu.

"Nú bendir flest til þess að af því innflæði verði ekki þar sem ríkissjóður hyggst nýta greiðsluna sem innt er af hendi í erlendu fé til að greiða niður erlendar skuldir sínar og því má ætla að gengi krónunnar muni lækka nokkuð. Þá er einnig útlit fyrir að verðbólga muni hjaðna nokkuð á síðasta fjórðungi ársins en það, ásamt efasemdum margra um vilja Seðlabankans til að hækka stýrivexti þegar gengisvísitalan er undir 110 stigum, er einnig til þess fallið að stuðla að gengislækkun krónunnar á næstu dögum.

Gengisvísitalan stendur nú í um 109 stigum og hefur gengi krónunnar hækkað mikið frá því í maí þegar gengisvísitalan stóð hæst í 116,6 stigum. Við höfum spáð því um hríð að gengisvísitalan muni sveiflast í kringum 110 stig það sem eftir er ársins og sú spá okkar er óbreytt. Seðlabankinn mun sennilega hækka stýrivexti upp í 10% fyrir árslok og næsta vaxtahækkun verður líklega samhliða útgáfu Peningamála þann 29. september næstkomandi. Stýrivextir bankans eru nú 9,5%."