Í nýrri stýrivaxtaspá greiningardeildar Kaupþings er því spáð að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, þegar sterk merki um kólnun efnahagslífsins verða komin fram. Vextir gætu þó lækkað fyrr, í desember, ef kólnunin verður hraðari en talið er. Gert er ráð fyrir að stýrivextir standi í 9-10% í lok árs 2009.

„Það sem helst kemur í veg fyrir vaxtalækkun á þessu ári – ef marka má yfirlýsingar Seðlabankans sjálfs - virðist vera skortur á trúverðugleika. Af þessum ástæðum er ekki hægt að grípa til aðgerða fyrr en hagtölur hafi sýnt fram á verðhjöðnun með óyggjandi hætti. Þannig muni markaðurinn túlka of bráða vaxtalækkun sem eftirgjöf og undanlátssemi – verðbólguvæntingar muni ekki lækka nægjanlega hratt og það muni síðan tefja fyrir hjöðnun verðbólgunnar og jafnvel skapa hættu á víxlverkun launa og verðlags,“ segir í stýrivaxtaspánni.

„Ef meiri ró kemst hinsvegar á gjaldeyrismarkaðinn eða hörð lending í íslenska hagkerfinu verður með einhverjum hætti staðfest með tölum, gæti Seðlabankinn lagt út á djúpið fyrr með vaxtalækkunum – s.s á vaxtaákvörðunarfundinum þann 20. desember næstkomandi,“ segir ennfremur.

Í spá Kaupþings er jafnframt bent á að tvisvar sinnum frá árinu 1990 hefur Seðlabankanum tekist að ná verðbólgu niður úr tveggja stafa tölu og niður fyrir 3% á innan við 12 mánuðum. Annars vegar 1992 og hins vegar árið 2002, en greiningardeild Kaupþings telur að ef réttar aðstæður skapast og gengi krónunnar staðnæmist eða styrkist mætti sjá fyrir sér að svipuð þróun verði á næstunni og varð í áðurnefndum tilvikum.

Gengi krónunnar óvissuþáttur

Helstu óvissuþættir stýrivaxtaspánnar eru að krónan gæti styrkst fyrr eða kólnunin í hagkerfinu orðið enn hraðari en eriknað er með. Þá myndi Seðlabankinn lækka vexti hraðar og fyrr en gert er ráð fyrir. Gengi krónunnar gæti hins vegar einnig gefið töluvert eftir í byrjun næsta árs vegna gjalddaga krónubréfa, og þá mundi Seðlabankinn væntanlega seinka vaxtalækkunum til að styðja við gengið.

Einnig ríkir óvissa um hvort sátt næst í kjarasamningum þannig að unnt verði að koma í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags. Takist það ekki dregst vaxtalækkun á langinn og verður hægari.

Að lokum má nefna að batni aðstæður á erlendum mörkuðum á næsta ári og aðgengi að lánum í erlendri mynt lagast þá hefur Seðlabankinn, að sögn greiningar Kaupþings, svigrúm til að lækka vexti hægar en gert er ráð fyrir í stýrivaxtaspánni.