Olíuframleiðsla Bandaríkjanna mun nema 7,8 milljónum fata á dag árið 2014 ef spá bandaríska orkumálaráðuneytisins rætist. Þetta þýðir að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum mun hafa aukist um 56% frá árinu 2008 og verður meiri árið 2014 en á nokkru ári síðan 1988. Við þetta bætist svo sú sprenging sem orðið hefur í gasframleiðslu í Bandaríkjunum.

Greiningarfyrirtækið Stansberry & Associates fjallar um þetta á heimasíðu sinni í dag og bendir á að framleiðsluaukningin, þ.e. 2,8 milljónir fata á dag, er nóg til að mæta allri olíuþörf Rússlands og er nærri því að geta mætt allri olíuþörf Afríku eins og hún leggur sig.

Þetta getur haft mikil áhrif á heimsmarkað með olíu. Eftir því sem Bandaríkjamenn framleiða meiri olíu því minna munu þeir flytja inn. Reyndar hefur olíuinnflutningur Bandaríkjanna nú þegar ekki verið minni síðan árið 1998. Eftirspurn á heimsmarkaði mun minnka til samræmis við þetta og olíuverð mun lækka mikið. Orkumálaráðuneytið bandaríska spáir 8% lækkun olíuverðs í ár og 15% lækkun árið 2014.

Þetta eru góðar fréttir fyrir neytendur, en ekki fyrir fyrirtæki sem framleiða olíu með miklum tilkostnaði. Nefnir Stansberry sem dæmi kanadíska olíufyrirtækið Suncor sem framleiðir olíu úr kanadíska olíusandinum svokallaða. HVert fat af olíu kostar Suncor um 140 dali að framleiða, en til samanburðar kostar það ExxonMobil aðeins um 9,4 dali að framleiða hvert olíufat. Nú þegar er framleiðni Suncor aðeins um 7,3% og ef olíuverð heldur áfram að lækka getur það haft alvarleg áhrif á rekstrarmöguleika fyrirtækisins sem og annarra sambærilegra olíufyrirtækja.