Raunávöxtun lífeyrissjóðanna í heild var á bilinu 7,5-7,8% í fyrra og þá góðu ávöxtun má fyrst og fremst rekja til hækkunar á verðmæti erlendra eigna vegna hækkana á erlendum hlutabréfamörkuðum. Veiking krónunnar hafði áhrif í þessa veru en þau voru mun minni, segir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að þótt hann sé bjartsýnn á framtíðina eigi hann ekki von á því að sjá jafn góða ávöxxtun í náinni framtíð.

Gunnar segir orðið erfiðara fyrir sjóðina að ná góðri ávöxtun en var. Margt komi þar til. Gjaldeyrishöft valdi því að sjóðirnir geti eingöngu fjárfest innanlands. Þá séu vextir á markaði í sögulegu lágmarki ef horft sé til síðustu áratuga. Sveiflur í gengi krónu hafa einnig áhrif.

Krónan veiktist um 6,5% í fyrra en hefur styrkst um 10,4% það sem af er árinu. Hann segir það hafa neikvæð áhrif á ávöxtun sjóðanna til skemmri tíma. Hins vegar séu það góðar fréttir fyrir þjóðfélagið, ekki síst baráttuna við verðbólguna, sem sé versti óvinur lífeyrissjóðanna.