Sérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu Sanford C. Bernstein & Co. hefur lækkað afkomuspá sína fyrir stórbankana Goldman Sachs og Morgan Stanley vegna þess hve velta á skuldabréfamörkuðum vestra hefur minnkað. Er greint frá þessu í frétt Bloomberg.

Hann gerir nú ráð fyrir því að hagnaður Goldman á þriðja ársfjórðungi verði 2,62 dalir á hlut, sem er 15% lækkun frá fyrri spá og að hagnaður Morgan Stanley verði 41 sent á hlut, sem er 20% lækkun frá síðustu spá.

Brad Hintz, sérfræðingur hjá Sanford, segir að þriðji ársfjórðungur sé venjulega lélegur hjá bönkunum, en þetta árið líti hann sérstaklega illa út. Segir hann að velta á skuldabréfamörkuðum á þriðja ársfjórðungi geti orðið 20-25% minni en á sama tíma í fyrra. Það þýðir að þóknanir fjárfestingabankanna lækka til samræmis.