IFS Greining spáir því að verðlag hækki um 1,0% í febrúar frá mánuðinum á undan. Gangi spáin eftir helst tólf mánaða verðbólga óbreytt í 4,2%, en verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli hækkar aftur á móti úr 2,6% í 5,4%.

Í spá IFS segir að inngrip Seðlabanka Íslands hafi stutt við gengi krónunnar að einhverju leiti eða dregið úr veikingu hennar á þessu ári og skiptir það máli fyrir spána. IFS gerir ráð fyrir því að matarkarfan hækki um 0,3% í febrúar en að fatnaður hækki um 6,5% þar sem útsöluáhrif ganga til baka í mánuðinum.

Þá gerir IFS ráð fyrir mikill hækkun í lið ferða og flutninga. Bensínverð hafi hækkað um 5,9% frá því í janúar og þá hafa nokkur bílaumboð hækkað verð á nýjum bílum annan mánuðinn í röð. Flugfargjöld til útlanda hafa hækkað og spáir IFS því að sá liður hækki um 8,8% í febrúar.