Flest bendir til að vísitala neysluverðs verði óbreytt á milli desember og janúar, segir greiningardeild Glitnis. Gangi spáin eftir mun verðbólga lækka í 6,6% í janúar úr 7,0% í desember. Ennfremur spáir hún 2,3% verðbólgu yfir þetta ár.

?Í janúar hafa gjaldskrárhækkanir opinberrar þjónustu og útsöluáhrif vegist á til hækkunar og lækkunar neysluverðs. Við gerum ráð fyrir að útsöluáhrif í ár verði svipuð og í fyrra. Gjaldskrárhækkun á opinberri þjónustu er nokkur en einnig kemur til lækkun á ýmsum sviðum sem dregur úr heildarhækkun gjaldskrárinnar.

Í spánni er gert ráð fyrir að íbúðarhúsnæði lækki lítillega en að áhrif vaxtahækkunar vegi lækkunina upp og að kostnaður við eigið húsnæði hækki lítillega milli mánaða. Undanfarna mánuði hefur matvöruverð lækkað en nú gerum við ráð fyrir nokkurri hækkun í janúar. Ástæðu þess má bæði rekja til verðhækkunar frá birgjum og launahækkunar í versluninni. Eldsneytisverð hefur haldist óbreytt frá í nóvember síðastliðnum,? segir greiningardeildin.

Verðbólga undir 4% í mars

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að verðbólga verði undir 4% þolmörk Seðlabankans í mars. ?Aðgerðir stjórnvalda til að lækka vöruverð hafa þar mikið að segja,? segir greiningardeildin. Hún telur að þær geti lækkað neysluverð um allt að 2,5%. ?Í spánni er gert ráð fyrir að lækkun virðisaukaskatts skili sér að fullu í mars en að lækkun tolla og afnám vörugjalda skili sér að mestu ekki fyrr en í apríl,? segir greiningardeildin.

Minnkandi verðbólguþrýstingur

Ennfremur virðast helstu áhrifaþátta verðbólgu leiða til minnkandi verðbólgu þegar fram sækir, að sögn greiningardeildarinnar. ?Mikið hefur hægt á hækkun íbúðaverðs og við teljum að það muni lækka lítillega á þessu ári. Enn er mikil spenna á vinnumarkaði og launaþrýstingur nokkur af þeim sökum en ef að líkum lætur mun draga jafnt og þétt úr þessari spennu á sama tíma og um hægist í hagkerfinu. Við gerum ráð fyrir lítilsháttar gengislækkun á árinu, en að áhrif snarprar gengislækkunar á síðastliðnu ári séu að langmestu leyti um garð gengin,? segir greiningardeildin.