Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi þann 20. ágúst.

Stýrivextir Seðlabankans hafa innan skamms staðið óbreyttir í tvö ár. Í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að breytingar á stýrivöxtum fari eftir framvindu verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Hagfræðideildin bendir á að nær engar breytingar hafi orðið á verðbólgu á síðustu mánuðum, heldur hafi hún haldist fremur stöðug, rétt undir verðbólgumarkmiðinu, síðan í janúar. Þá séu verðbólguvæntingar fremur stöðugar, sem og gengi krónunnar.

Hagfræðideild Landsbankans telur þó að peningastefnunefndin fari að íhuga vaxtahækkun alvarlega á næstu fundum. Í því samhengi geti þó skipt máli hvort nýr maður setjist í stól seðlabankastjóra.