Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 15. maí næstkomandi. Meginforsenda spárinnar er að krónan hefur styrkst talsvert frá vaxtaákvörðuninni 20. mars og hagtölur benda til þess að hagvöxtur undanfarið hafi verið öllu hægari en Seðlabankinn reiknaði með í sinni síðustu spá. Verðbólguhorfur hafa því batnað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun. Verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað, verðbólgan hjaðnað frá vaxtaákvörðuninni 20. mars og hefur verðbólguþróunin verið nokkuð í takti við síðustu verðbólguspá Seðlabankans.

Gengi krónunnar hefur styrkst talsvert frá vaxtaákvörðuninni 20. mars síðastliðinn. Nemur hækkunin á mælikvarða viðskiptaveginnar vísitölu krónunnar 6,7%. Þá hefur gengi krónunnar einnig hækkað á aflandsmarkaði sem og í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans. Hækkunin á álandsmarkaði hefur staðið síðan í febrúarbyrjun á þessu ári en á aflandsmarkaði og í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans hefur krónan verið að styrkjast nánast samfellt frá því í júní í fyrra.

Verðbólgan hefur hjaðnað talsvert frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar, úr 4,8% í 3,3%. Var verðbólguþróunin á fyrsta ársfjórðungi í takti við spá Seðlabankans. Í nýjustu spá bankans sem birt var í febrúar síðastliðnum var gert ráð fyrir því að verðbólgan á fyrsta fjórðungi yrði 4,0% en raunin varð 4,3%. Bankinn spáði því jafnframt að verðbólgan muni hjaðna nokkuð hratt á næstunni, að hún verði 3,5% á öðrum fjórðungi þessa árs og að verðbólgan verði rétt við 2,5% verðbólgumarkmið bankans á seinni helmingi ársins 2014. Er þetta svipuð verðbólga og Greining Íslandsbanka spáir á öðrum ársfjórðungi en til lengri tíma reiknar hún með því að verðbólgan verði nokkuð þrálátari en Seðlabankinn reiknar með.