*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 1. nóvember 2019 13:51

Spáir óbreyttum vöxtum

Hagfræðideild Landsbankans telur að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum í næstu viku.

Ritstjórn
Ákvörðun um stýrivexti verður tekin á miðvikudaginn í næstu viku.
Haraldur Guðjónsson

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman á miðvikudaginn í næstu viku og tekur ákvörðun um stýrivaxtastig bankans. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að nefndin ákveði að halda vöxtum óbreyttum en reiknar með að vextir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig næstkomandi desember. 

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá sem deildin birti á vef Landsbankans í morgun. 

Deildin segir óvissu ríkja um hversu lágir raunstýrivextir muni fara og því ríki nokkur óvissa um hve lágt nafnvextir muni fara.  „Miðað við efnahagshorfurnar eins og þær líta út í dag gerum við ráð fyrir að meginvextir Seðlabanka Íslands, þ.e. vextir á 7 daga bundnum innlánum, muni fara lægst niður í 3% í þessu vaxtalækkunarferli. Vextirnir eru 3,25% í dag, sem þýðir að nefndin á eftir að lækka vextina einu sinni um 0,25 prósentustig. Hér er einnig rétt að benda á að Seðlabankinn er þarna að feta nýjar slóðir en meginvextir Seðlabankans hafa ekki áður verið jafn lágir eins og þeir eru nú.“

Þá segir deildin að það auki á óvissuna að samhliða vaxtaákvörðuninni verði ný útgáfa af Peningamálum birt sama dag með verðbólgu- og þjóðhagsspá. „Hugsanlega kann ný verðbólguspá bankans að sýna lægri verðbólgu á næstu fjórðungum og að hún fari fyrr niður í markmið en þegar síðustu Peningamál voru gefin út í ágúst. Það eykur líkurnar á vaxtalækkun nú í nóvember. Það sem kann þó að hafa áhrif á verðbólguspána til hækkunar er að krónan er ögn veikari nú en í ágúst þegar Seðlabankinn gaf síðast út verðbólguspá.“