Ef Seðlabanki og ríkisstjórn snúa ekki við stefnu sinni er hætt við því að eignabóla, gjaldeyrisflótti og gengisfelling fylgi í kjölfarið og að Ísland verði aftur komið í faðm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2016. Þetta er mynd, sem Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, dregur upp í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Er greinin skrifuð líkt og sagnfræðiritgerð úr framtíðinni.

„Eftir hrunið árið 2008 hafði hagkerfið smám saman jafnað sig undir gjaldeyrishöftum. Bankarnir höfðu breyst úr því að vera innheimtustofnanir, líkt og árin 2009 og 2010, í að verða aftur útlánsstofnanir 2012. Innlendir og erlendir kröfuhafar höfðu fengið hundruð milljarða greidd út í krónum. Lífeyrissjóðirnir þurftu einnig að fjárfesta miklu magni af krónum sem skapaði töluverða samkeppni um þær traustu eignir sem voru innan hagkerfisins og gerði það að verkum að eignaverð var í engu samræmi við sambærilegar eignir í nágrannalöndum. Fjármagnshöftin, sem Seðlabankinn hafði haldið fast við, gerðu það þannig að verkum að öll verð hagkerfisins voru bjöguð.

Verðbólgan var mikil, sökum þess að enginn treysti krónunni og hún gaf hægt og sígandi eftir, en hækkun eignaverðs var ennþá meiri. Almenningur reyndi að forða eignum sínum frá verðbólgubálinu með fjárfestingum í alls konar fastafjármunum, ekki síst húsnæði. Fasteignaverð hafði til dæmis hækkað um 50% á 3 árum og lán til framkvæmda höfðu margfaldast. Á hápunkti bólunnar seldust einbýlishús á verði sem aldrei hafði sést áður, ekki einu sinni fyrir síðustu myntbreytingu 1981 þegar tvö núll voru tekin aftan af gjaldmiðlinum. Meðalverð einbýlishúsa var vel yfir 100 milljónum og Seðlabankinn kórónaði óstjórnina í peningamálum með því að gefa út nýja 10.000 og 20.000 króna seðla. Eitt einbýli við Tjörnina hafði farið á 400 milljónir króna.

Íslenskt eignafólk hafði einnig beitt ýmsum ráðum til þess að flýja mikla skattlagningu og koma eignum úr landi og margir fluttu sjálfir úr landi. Þar sem ekki mátti selja krónur fyrir alþjóðlega gjaldmiðla reyndu menn allt til þess að nálgast alþjóðleg verðmæti með öðrum hætti. Verk allra íslenskra málara sem höfðu alþjóðlegt verðgildi voru löngu uppseld. Öll rauðvín sem höfðu geymslugildi einnig. Það gekk svo langt að menn keyptu skartgripi, fornmuni, húsgögn og styttur, sem lítil not voru af, til þess eins að losa sig við krónurnar.„

Lesa má greinina í heild sinni á Vísi.is .